Laugardaginn 11. júní sást brandandarpar (Tadorna tadorna) með átta unga á Tungugrafarvogunum rétt sunnan Hólmavíkur. Þetta er í fyrsta skipti sem vitað er til að varp brandandar skili árangri á þessu svæði. Undanfarin ár hefur sést til brandanda á svæðinu að vori en í fyrra hélt par sig nær allt sumarið á Tungugrafarvogunum. Í ár hafa einnig haldið til brandendur innar í Steingrímsfirði.
Brandöndin er fremur stór önd og skrautleg. Kjörsvæði hennar eru leirur og á grunnsvæði. Brandöndin var flækingur hér á landi til 1990 en þá verpti hún fyrst í Eyjafirði. Nokkuð brandandarvarp er rétt við Hvanneyri í Andakílnum. Brandöndin hér á landi er líklega að mestu farfugl.
Náttúrustofa Vestfjarða | Aðalstræti 12 | 415 Bolungarvík | kt 610397 2209 | sími: 456 7005 | netfang: nave [hjá] nave.is