Kolönd (Melanitta deglandi) sást úti af Gerðhömrum síðastliðinn þriðjudag (11. febrúar).
Kolönd er með varpútbreiðslu N-Ameríku. Vetrarútbreiðsla er bæði á vestur- og austurströnd N-Ameríku. Kolönd var nefnd áður Vestræn korpönd (Melanitta fusca deglandi) og var deilitegund af korpönd (Melanitta fusca) en nú hefur þeim verið skipt upp í tvær tegundir. Sú síðarnefnda er með útbreiðslu í N-Evrópu. Báðar tegundirnar sjást hér við land og hefur kolöndin sést oftar síðustu ár. Báðar þessar tegundir hafa sést áður á Vestfjörðum og sást t.d. korpönd nálægt Gerðhömrum fyrir tæpum 30 árum. Kolöndin hefur sést (svo staðfest sé) í Engildal í Skutulsfirði (2006) og í Arnarfirði frá 1993-2005.
Náttúrustofa Vestfjarða | Aðalstræti 12 | 415 Bolungarvík | kt 610397 2209 | sími: 456 7005 | netfang: nave [hjá] nave.is